149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:17]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ræðuna. Það er hollt að skoða reglulega á löngum ferðum hvaðan var farið af stað og ekki síður hvert skal halda. Það er nú svo í þessu máli að við höfum farið ansi víða vegna þess að málið er stórt. Það er ekki svo að við séum búnir að missa sjónar á því hvert skuli halda. En ég hef á tilfinningunni að það sé rétt sem hv. þingmaður er að ýja að, ef ég skil hann rétt, að af því hve málið er stórt og víðfeðmt hafi kannski í meðförum hv. utanríkismálanefndar á lokametrunum verið stokkið svolítið á ákveðna og afmarkaða þætti málsins sem fólk taldi að væru lausnarorð til þess að geta leyft kerfinu að hafa sinn gang. Það sem er verið að bjóða upp á hér í umræðunni, að þetta snúist allt um neytendavernd, á við í meginlandshugmyndafræði en ekki á Íslandi, ætla ég að leyfa mér að segja fullum fetum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann sjái þetta mál á sama hátt og ég, að hér sé verið að stökkva á ákveðin orð án þess að kafa dýpra í það hvað stendur þeim að baki.