149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni kærlega fyrir andsvarið. Hann gat um störf á vettvangi utanríkismálanefndar. Ég hafði tækifæri til að sitja nokkra fundi nefndarinnar í aðdraganda þessa máls. Ég tek eftir því að formaður og ýmsir aðrir nefndarmenn ljúka miklu lofsorði á eigin störf og telja þau hafa verið hin ágætustu. Ég vil ekki varpa rýrð á störf annars fólks með nokkrum hætti, en þegar því er haldið fram að haldnir hafi verið heilir níu fundir í utanríkismálanefnd um þetta mál, hvað á maður þá að segja við slíku? Er það mikið eða lítið þegar hagsmunir þjóðarinnar eru undir, þegar spurningin um það hvort erlendir aðilar fái ítök í orkuauðlindum þjóðarinnar er undir? Eru þá níu fundir mikið eða lítið?

Ég var viðstaddur og tók þátt í fundi þar sem mættur var prófessor Davíð Þór Björgvinsson, höfundur fræðirits um Evrópurétt og nú varaforseti Landsréttar. Í svari við spurningu frá mér á fundinum, um þjóðréttarlegt gildi hins lagalega fyrirvara, sagði hann í áheyrn fundarmanna, þar á meðal hv. formanns utanríkismálanefndar, að hann hefði náttúrlega ekkert gildi í þjóðréttarlegum skilningi — og hann bætti því við að hann væri til heimabrúks. Ég skal ekki segja nákvæmlega hvort lagaprófessorinn og dómarinn átti við heimabrúk, þannig að honum yrði yrði veifað framan í kjósendur eða þannig að hann yrði notaður til að róa þingflokk Sjálfstæðisflokksins, sem a.m.k. lengi vel var órólegur yfir þessu máli. En þetta sagði hann og ég (Forseti hringir.) furða mig á því að hv. formaður utanríkismálanefndar (Forseti hringir.) skuli ekki hafa dregið neinar ályktanir af þessum svörum prófessors Davíðs Þórs Björgvinssonar á umræddum fundi utanríkismálanefndar.