149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Skerðing á lífsgæðum, það er líklega kjarni málsins. Hér er barist fyrir því að reyna að drífa í gegnum þingið innleiðingu sem leiðir til skerðingar á lífsgæðum á Íslandi. Og svo rökstyðja menn það með hætti sem er jafn innfluttur og orkupakkinn sjálfur, þ.e. með rökum að utan, frá Evrópusambandinu, sem hér á landi snúast upp í andhverfu sína. Maður fer að velta fyrir sér fyrst haldið er svona á þessu máli nú, þriðja orkupakkanum; hvers væri þá að vænta af þessari sömu ríkisstjórn þegar henni yrði falið að innleiða fjórða orkupakkann? Mættum við ekki bara vænta þess sama, að útskýrt yrði fyrir okkur að við þyrftum að innleiða hann af því að við hefðum innleitt þann þriðja og svo tækju menn við einhverjum talpunktum frá Evrópusambandinu (Forseti hringir.) og myndu þýða þau og flytja hér án tillits til íslenskra aðstæðna?