149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegi, viðkunnanlegi og vitri forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi áttað sig á því hversu mikill munur er á rökstuðningi stjórnarflokkanna og fylgitungla þeirra, sem reyna að koma þessu máli í gegnum þingið, og til að mynda ýmissa forsvarsmanna úr atvinnulífinu, rökstuðningi fyrir innleiðingu þessa orkupakka. Annars vegar erum við með stjórnvöld sem fullyrða að þetta hafi í raun engin áhrif, skipti engu máli, við bara þurfum að gera þetta til að gera það, en svo dúkka upp forystumenn úr atvinnulífinu og nota nákvæmlega gagnstæð rök, þetta sé svo mikilvægt vegna þeirra áhrifa sem það hafi. Þar nefni ég t.d. forstjóra Landsvirkjunar, sem útlistaði að nauðsynlegt væri að samþykkja þriðja orkupakkann til að styrkja samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart stóriðjunni hvað varðar verð orkunnar. Ekki er hægt að túlka það öðruvísi en að hann líti svo á að með því myndi verð á rafmagni hækka, eins og við höfum reyndar verið að vara við.

Svo eru ýmsir forystumenn úr samtökum atvinnurekenda sem boða að þetta sé mikilvægt einmitt til þess að Evrópa geti farið að nýta okkar umhverfisvænu íslensku orku og sjá þá væntanlega fyrir sér að einhvers staðar sé hagnaðarvon í að flytja út þá orku. Hvernig fer það saman að mati hv. þingmanns að á sama tíma reyni stjórnvöld að sannfæra okkur um að samþykkja þetta bara af því að þetta hafi í raun engin áhrif og svo eru atvinnurekendur að segja okkur að samþykkja þetta af því að þetta sé svo mikilvægt og muni hafa svo mikil áhrif? Ég fæ þetta ekki til að ganga upp, ekki frekar en svo margt annað í þessu máli.