149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:20]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Um undanþágurnar í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er einmitt fjallað í nokkrum greinum, m.a. 102. gr. og svo er framhald í 103. gr. og alls staðar er komið mjög skýrt inn á það að í því felist að ná sátt, að gera sitt ýtrasta, að allir aðilar sem að þessu samstarfi koma skuli beita sér á þann hátt að ná sátt, en ekki að hafa í hótunum um að einhver verði rekinn úr samstarfinu eða það muni hafa alvarlegar afleiðingar á einhvern hátt fyrir viðkomandi, þvert á það sem hefur verið haldið fram hér.

En um þá stórsnjöllu fyrirspurn varðandi 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins þegar hún var notuð í fyrsta skipti — felst áhætta í þessu? Ég ætla að fullyrða nei og nei er ansi magnað orð.

Mig langar til að rifja það upp fyrir hv. þingheimi, frú forseta og þjóðinni, að nei skilaði okkur stjórnarskrá og fullveldi. Nei skilaði okkur efnahagslögsögunni. Nei skilaði okkur sigri í Icesave.

Ég er hræddari við já-ið, undirlægjuháttinn og leiðitamnina en að standa í lappirnar og segja nei.