149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:37]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ástæða þess að ég dreg þetta hér upp er sú að við höfum í þaula, þingmenn Miðflokksins, bent á að það séu fleiri leiðir en ein og verið með útrétta sáttarhönd í þessu máli með hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Ég velti því hér upp, og myndi vilja fá viðbrögð þingmanns við því, hvort ekki geti verið að munur sé á því að hafna algjörlega innleiðingunni, sem búið var að semja um í sameiginlegu EES-nefndinni, með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu allra EES-ríkjanna, Liechtenstein, Noregs og Íslands, og því að nýta sáttaferlið, sem er byggt á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Getur ekki verið að dr. Baudenbacher sé að benda á það?