149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:26]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir andsvarið. Eftir því sem ég les meira og oftar þeim mun sannfærðari verð ég, til að svara spurningunni, um að ótti okkar er á traustum rökum byggður. Hér er verið að framselja vald.

Ég vona að mér verði fyrirgefið reynsluleysi mitt hér í þingsal en ég hef þó fylgst nokkuð með þjóðmálaumræðu. Hv. þingmaður vitnar í viðtal við hæstv. fjármálaráðherra en fyrir ári voru ansi margir þingmenn augljóslega búnir að kynna sér þessi gögn og kynna sér þau vel. Þeir tóku á þeim tíma mjög skýra afstöðu, sem er sú sama og við erum að tala fyrir hér. Þeir notuðu sömu rök. Ég heyrði að hv. þingmaður sagði að hann ætlaði að koma inn á þessar yfirlýsingar og þessi viðtöl betur í seinni ræðu. Hann er kannski með fleiri viðtöl en ég hef lesið og rýnt.

Ég held að það sé morgunljóst að í þessu felst valdframsal. Í þessu felst ekki neytendavernd fyrir Íslendinga. Í þessu felst ekki hagræði. Í þessu felst ekki náttúruvernd. Í þessu felast hagsmunir Evrópusambandsins. Í þessu felst að hér skuli ná fram markmiðum Evrópusambandsins og orkubandalags Evrópu.