149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:06]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna, hugleiðingu um hvort við stöndum á eins konar tímamótum, hugleiðingu um hvort hér sé það sem stundum hefur verið kallað að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar, þ.e. að kjörnir fulltrúar, ríflegur meiri hluti þeirra, hafi hreinlega sagt skilið við sjálfa sig, stefnu sína, stjórnmálaflokk sinn og grasrótina, hinn almenna kjósanda. Það vissulega má leiða líkur að því að hér standi um 20–30% þjóðarinnar nokkuð á sama um þetta mál þar sem vilji þeirra stendur til þess að ganga í Evrópusambandið með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja. En lungi almennings, sem fylgir þá hinum stjórnmálaflokkunum, hefur haft það sem eindregna skoðun sína að við eigum að halda sjálfstæði okkar, við eigum að vera fullvalda þjóð og við eigum að nýta það fullveldi til að gera samninga við önnur ríki, en ekki undirgangast boðvald erlendra aðila eða stofnana. Telur hv. þingmaður að sú greining sé (Forseti hringir.) í nánd við raunveruleikann?