149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:22]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, það er nú það sem ég ætlaði einmitt að halda áfram að leiða út, hið sérkennilega samspil ESA og ACER. Þeir ágætu fræðimenn sem ég nefndi áðan og hafa títt verið nefndir í umræðunni halda áfram í greiningu sinni og vekja sérstaka athygli á því samspili sem ég rakti áðan, þ.e. að ACER semur drög, leggur þau fyrir ESA og ESA samþykkir. Ef ESA vill ekki samþykkja drögin getur hún beðið um önnur drög en það er einungis eitthvað sem ACER þarf að íhuga. Það er ekki nauðsynlegt að gera neitt meira með það.

En sérstök athygli er vakin á því að sú málsmeðferð er aldrei öfug. Hún virkar bara í aðra áttina, þ.e. ESA semur ekki drög að ákvörðunum sem eru lögð til grundvallar að ACER. Áhrif ACER eru því mun meiri en ESA að því leyti, þ.e. það er ekki jafnvægi í samningnum. Það er ekki jafnræði á milli EES-ríkjanna og svo Evrópubandalagsríkjanna.

Það er orðið svolítið alvarlegt mál. En það er hins vegar eitthvað sem samrýmist alveg fyllilega stefnu Evrópubandalagsins, að færa út mörk bandalagsins, koma á heildstæðu kerfi, koma á samþættingu í lögum og vera með eins mikla samfellu í öllu sínu innra starfi og mögulegt er. Það á hins vegar ekkert skylt við sjálfstæðar þjóðir.