149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er hárrétt. Ég vil líka bæta við það sem hv. þingmaður segir, að í íslensku viðskiptalífi eru margir liprir áróðursmeistarar. Ég nefni t.d. heildsalasamtökin sem heita eitthvað fínna núna sem eru nýbúin að taka við 3 milljörðum úr ríkissjóði og það veit enginn í hvað það fór, hvort það fór í að lækka vöruverð eða gera eitthvað annað. Það sem meira er, herra forseti, er að ég sá viðtal við lögmann sem hafði borið sigurorð af ríkinu í dómsal og herjað út þessa 3 milljarða og hann sagði: Heyrðu, við erum rétt að byrja.

Það á greinilega að sækja meira fé til ríkisins af hálfu þessara aðila. Þeir eru í fullum færum til þess að taka við áróðri einhvers staðar frá og bera hann á borð sem heilagan sannleik, nákvæmlega eins og þeir hafa gert nokkuð mörg undanfarin ár. Ég gæti alveg trúað því að ef þingmál um t.d. innflutning á hráu, ófrosnu kjöti, sem við gætum farið yfir á eftir hvað á sameiginlegt með þessu máli, kemst á dagskrá einhvern tímann fyrir þinglok væri alveg örugglega hægt að fara yfir það hvernig áróðurinn hefur verið rekinn hvað það mál varðar. Það vantar ekkert upp á að á Íslandi séu til menn sem geta rekið áróður fyrir ýmsum hlutum og þar á meðal reynt að selja okkur það að með því að taka inn í íslenskan rétt þriðja orkupakka Evrópusambandsins muni orkuverð til heimila og fyrirtækja lækka. Það er náttúrlega þveröfugt, það mun stórhækka eins og sýnt hefur verið fram á.