149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ekki þannig að sá sem hér stendur væri að taka það eitthvað persónulega sem hv. þingmaður sagði. Jú, ég hef enn von, ég vona á menn eins og hæstv. forseta sem eru skynsamir, að þeir beiti sér í sínum þingflokkum til að menn sjái ljósið, aðrir. Og ég hef fulla trú á því að það gerist.

En ég hef svipaða reynslu og hv. þingmaður af því, verandi ekki tæknilega sinnaður, að hafa fengið ótal kveðjur, ótal hvatningar á hverjum klukkutíma meðan þessi umræða hefur staðið. Líkt og ég sagði í fyrra svari mínu: Á meðan svo er, meðan fólk hér utan veggja hvetur okkur áfram til góðra verka, þá skipta einstaka hælbítar ekki máli. Þeir eru bara svona óþægindi, tímabundin, sem grær yfir.

Það er aftur á móti verra að bregðast trausti þeirra sem treysta á okkur — það er erfiðara að eiga við það og lifa með því. En að hafa staðið hér og fært fram þennan málstað er ekki nema það sem við eigum að gera. Það er okkar verk, það er okkar starf. Þetta snýst ekki um þennan flokk og þetta snýst ekki um þessa þingmenn, þetta þingmál á að vera ofar pólitík. Það ætti í raun og veru, ef einhver sómi væri að hér, að vera búið að ná þverpólitískri samstöðu um að bæta þetta mál. Það myndi vekja aukið traust á Alþingi og tiltrúnað til þess ef það væri hægt.

En það lítur ekki út fyrir það í svipinn, herra forseti, að það sé mögulegt. En auðvitað leggjumst við ekki í grasið út af því. (Forseti hringir.) Við bara höldum áfram vegna þess að við trúum á skynsemina, líka skynsemi annarra hér inni og líka á skynsemi þeirra sem hafa hæst á móti okkur.