149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:15]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Já, mér heyrðist hv. þingmaður nálgast þetta á svipaðan hátt og ég er að reyna að koma á framfæri með þessari upprifjun.

Það er mikilvægt að læra af sögunni, læra af reynslunni. Það gengur oft furðuerfiðlega hjá mannfólkinu. En þegar menn eru með dæmin fyrir framan sig, sem eru svo lík því sem verið er að fást við í það skiptið, hljóta þeir að vilja líta til reynslunnar af því.

Ef til vill má nota flugið sem dæmi um þetta. Þar leitast menn við að læra af reynslunni. Verði einhvers staðar gerð mistök einhvern tímann nota menn þá reynslu til að koma í veg fyrir að slík mistök endurtaki sig. Hví ekki að nálgast lagasetningu meira á þeim nótum? Ég tala nú ekki um þegar við erum með dæmi sem er alveg sláandi líkt því sem við erum að fást við núna.

Munurinn er þó helst sá að annar orkupakkinn, eins og hann hefur verið kallaður í seinni tíð, var einfaldlega raforkutilskipun. Þriðji orkupakkinn er miklu stærri og í honum eru reglugerðir. Á þessu er veigamikill munur vegna þess að löndin sem taka upp þessar gerðir hafa miklu meira frelsi til að laga sig að tilskipunum en reglugerðum.

Því má álykta að þriðji orkupakkinn geti haft sömu áhrif og annar orkupakkinn, nema hvað þau verði mun meira íþyngjandi og mun meiri krafa um að Íslendingar fylgi reglugerðum í einu og öllu en hafi mjög takmarkað svigrúm til að laga að aðstæðum hér.