149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti athyglisvert það sem hv. þingmaður sagði hérna áðan. Ég held að það hljóti að vera erfiðara fyrir fyrrverandi forystumenn Vinstri grænna að horfa upp á flokkinn sinn taka forystu í markaðsvæðingu auðlinda og horfa ekki á að uppbygging vindmyllugarða og smávirkjana mun hafa gríðarleg umhverfisleg áhrif.

Tveir menn hafa stigið fram og bent á þetta; Ögmundur Jónasson og Hjörleifur Guttormsson. Maður verður var við það að allmargir fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins eru mjög gagnrýnir á framkomu flokksins og framgöngu í þessu máli. Að undanskildum Frosta Sigurjónssyni, fyrrverandi alþingismanni, þá eru Framsóknarmenn ekki svona áberandi í gagnrýninni, kannski líka út af því að þeir eru færri. Þannig að á meðan Sjálfstæðisflokkurinn á e.t.v. sex fyrrverandi forystumenn, á Framsóknarflokkurinn kannski bara einn eða tvo. Guðni Ágústsson er náttúrlega þarna líka.

Það er alveg ljóst að bæði fyrrverandi forystumenn og gamlir jaxlar sem borið hafa uppi starf þessara flokka, plús trúnaðarmannakerfið — það logar stafna á milli.

Þetta er mjög athyglisverð pæling hjá hv. þingmanni. Mig langar til að biðja hana um að tjá sig um þetta sem ég minntist á varðandi Framsóknarflokkinn og Guðna Ágústsson og Frosta Sigurjónsson. Það væri fróðlegt að heyra hvað hann segir um það.