149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég var byrjaður að ræða efnahagslegar afleiðingar innleiðingar þriðja orkupakkans á Íslandi. Aðeins hefur verið rætt um mat á efnahagslegum áhrifum í Noregi en ég hef fært rök fyrir því að áhrifin hér á Íslandi yrðu þeim mun meiri — og þó er norska greiningin mjög afdráttarlaus og afgerandi neikvæð. Menn tala um svarta skýrslu hvað varðar efnahagslegar afleiðingar af innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi. Ég hafði lýst í stuttu máli þeim áhrifum sem það hefur á samfélagið ef orkuverð hækkar og ef ekki verður lengur rekstrargrundvöllur fyrir undirstöðu iðnfyrirtækja eða að ný slík starfsemi velur að hefjast frekar t.d. í Evrópu, nær mörkuðum en hér á landi. Þetta hefur mjög verulega keðjuverkun í för með sér.

Þetta er hins vegar ekki bara spurning um iðnfyrirtækin, stóriðju og slíkt. Aðgengi að hreinni orku eins og hún er enn hér á Íslandi, þrátt fyrir að bókhald sýni stundum annað, og orku á samkeppnishæfu verði hefur bein áhrif á nánast allar atvinnugreinar. Þetta er ekki eingöngu spurning um keðjuverkun frá iðnaðinum sem ég hef rakið heldur líka bein áhrif. Þar má t.d. nefna stærstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustuna. Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir því að til að mynda hótel þurfa að nota gríðarlega mikið rafmagn til þess að lýsa upp hótelin og reka ýmis tæki sem tilheyra slíkum rekstri. Á sumum stöðum þurfa gistiheimili og hótel jafnvel að nota rafmagn til kyndingar. Ef við ætlum að vega að þessari mikilvægu útflutningsgrein með því að það halli á hana hvað orkuverð varðar er þar í enn einu tilviki verið að gera samkeppnisstöðu hennar lakari gagnvart ferðaþjónustu í löndunum í kringum okkur — og samkeppni þar á milli er mjög mikil.

En fleira má nefna. Aðrar undirstöðuatvinnugreinar eins og landbúnaður, og raunar sjávarútvegur líka, verða fyrir mjög miklum beinum áhrifum af því ef orkuverð hækkar. En það er ekki eingöngu vegna hækkunar á orkuverði heldur líka það að ákveðið forskot hefur verið í því fólgið, fyrir þennan rekstur og annan rekstur á Íslandi, að geta státað sig af því að nota hreina orku í sinni framleiðslu. Fyrirtæki í sjávarútvegi, til að mynda, og íslenskur landbúnaður hafa nýtt þá staðreynd til þess að bæta aðeins við samkeppnisforskot sitt gagnvart erlendum greinum af sama toga.

Í raun væri hægt að fara í gegnum nánast allan rekstur hér á Íslandi og draga fram hversu miklu máli það skiptir, upp á samkeppnishæfni atvinnugreina hér á landi, að hafa aðgang að umhverfisvænni orku á viðráðanlegu verði. Þegar staðan er sú að það eru bæði þessi keðjuverkandi áhrif sem ég lýsti í fyrri ræðu, vegna fyrirtækja sem nota sérstaklega mikla orku, og svo bein áhrif á nánast allan annan rekstur þá hefur þetta bein áhrif á nánast alla launþega landsins — og þar af leiðandi á tekjur sveitarfélaga, og um leið tekjur ríkissjóðs. Og talandi um sveitarfélög í landinu eru þau nú enn eitt dæmið um aðila sem yrðu fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni ef þau þyrftu að fara að greiða hærra orkuverð til að lýsa göturnar eða reka þá fjölþættu starfsemi sem sveitarfélög þurfa að sinna.

Niðurstaðan er þessi: Orkuverðið hefur áhrif á allan rekstur, bæði opinberan rekstur og einkarekstur, á Íslandi — og hefur fyrir vikið mjög veruleg bein og óbein áhrif á lífskjör alls almennings í landinu.