149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hv. þingmaður vísi í þessi skrif. Sannarlega hef ég aldrei stutt aðild Íslands að Evrópusambandinu og búinn að berjast gegn því að við göngum í Evrópusambandið lengur en flestir hér inni, held ég. Svo sannarlega studdi ég aldrei samningana um Icesave. En hv. þingmaður vísaði hér í blekkingarnar í mars 2015. (Gripið fram í.)Hv. þingmaður vitnaði í blekkingarnar í mars. (SDG: Þátt Sjálfstæðisflokksins.) Nú fer um þingmenn Miðflokksins. Þeir byrja að kalla fram í nokkuð margir, sérstaklega hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ég … (Gripið fram í.) Aftur kallar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fram í. Er þetta viðkvæmt hv. þingmaður? Er þetta viðkvæmt? (SDG: Svaraðu spurningunni.)(Forseti hringir.)

(Forseti (BN): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa hæstv. ráðherra ráðrúm til að svara.) (SDG: Hann gerir hvort eð er ekki …)

Virðulegi forseti. Þetta er augljóslega svakalega viðkvæmt fyrir hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það sem ég ætlaði bara að segja er að ég vissi ekki að beitt hefði verið einhverjum blekkingum en kannski ætti þetta innanflokksmál Miðflokksins að ræðast hér úr púlti. Það eru augljóslega mismunandi sjónarmið uppi (Forseti hringir.) meðal hv. þingmanna. Það verður bara áhugavert að vita af því. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Allir vita það. Svara spurningunni um hvort ég styðji þetta mál? Það er einfalt, ég geri það.