149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar hér um lakari leiðina. Við erum búin að afgreiða það, við kölluðum til bæði erlendan aðila, Carl Baudenbacher, sömuleiðis innlendan til að fara yfir þá leið sem augljóslega er ekki fær og á ekki að beita nema það séu ríkir hagsmunir undir og þeir eru ekki hér.

Aðeins svo ég vitni aftur í áréttinguna, þá er ég að vísa í Stefán Má Stefánsson og Friðrik Friðriksson Hirst, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að við teljum að þessi leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa að þessu leyti þá teljum við mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd.“

Innleidd. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður vill ekki kynna sér niðurstöður þessara aðila sem hann er alltaf að vísa í. Það er algerlega óskiljanlegt. Vafi þeirra liggur í því að ESA gæti hugsanlega gert athugasemdir, svo færa þeir rök fyrir því alveg sérstaklega hversu litlar líkur eru á því.