149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér þetta vel og það vill svo til að sama dag og hæstv. ráðherra birti bréfið sem hann kallaði sérstaklega eftir, verandi lentur í vandræðum með rökstuðning sinn, fór Friðrik Árni Friðriksson Hirst í viðtal við mbl.is og útskýrði að þessi leið væri sannarlega ekki gallalaus, henni fylgdi áhætta, t.d. að ESA gæti séð ástæðu til að höfða samningsbrotamál á þeim forsendum að Ísland hefði tekið upp þriðja orkupakkann, hefði innleitt hann. Hann benti líka á þann möguleika að einstaklingar eða lögaðilar gætu höfðað skaðabótamál og vísaði í að þeir hefðu þennan rétt vegna innleiðingarinnar.

Þeir voru mjög skýrir á nefndarfundi, þessir fræðimenn, með það að þeir hefðu ekki séð fyrirvarann. Þó voru þeir búnir að sjá allt sem hæstv. ráðherra hafði kynnt. Fyrirvararnir þyrftu að vera þess eðlis að það yrði ekki innleitt. En hæstv. ráðherra er að innleiða með einhverri einhliða yfirlýsingu sem kom fram hjá sumum fræðimönnum (Forseti hringir.) að væri fordæmalaus aðferð.