149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Í síðustu ræðu minni fór ég aðeins yfir viðtal við Friðrik Árna Friðriksson Hirst frá því í apríl, en það sem ég ætlaði að fara í þá en frestaði ögn var að fara meira ofan í umsögn til utanríkismálanefndar frá Eyjólfi Ármannssyni lögfræðingi. Í stuttu máli sagt hefur hann, eins og ég hef komið inn á áður, mjög verulegar athugasemdir við innleiðinguna á þriðja orkupakkanum eins og hann er hugsaður núna. Að vissu leyti er einnig samhljómur milli hans og Friðriks Árna. Þetta viðtal við Friðrik Árna var tekið, ef ég man rétt, aðeins eftir að hann sendi þetta áréttingarbréf svokallaða til utanríkisráðuneytisins.

En eins og ég sagði áðan, þegar ég drap aðeins á umsögnina hans Eyjólfs, segir hann að lagafyrirvarinn sem gerður er, eins og hann er núna, feli í sér „vafasama lögfræðilega loftfimleika og óvissuferð gagnvart eftirfylgni við EES-samninginn en fyrirvarinn á að setja skorður við að með innleiðingu geti Ísland orðið hluti innri orkumarkaðarins. Gerðin felur í sér framsal á fullveldi og stjórnskipuleg álitaefni og á Alþingi að krefjast nánari upplýsinga um innleiðinguna.“

Það vorum við að reyna að gera í kvöld. Við reyndar báðum um upplýsingar og fengum ekki. Síðan voru þarna tilvitnuð orð ofar sem hann túlkar sem svo að óljóst sé hver hinn lagalegi fyrirvari sé, ætli sem sagt að leita að týnda fyrirvaranum eins og við.

Hann segir líka:

„Virðist því eiga að innleiða í íslenskan rétt mikilvæga þjóðréttarlega skuldbindingu varðandi helstu náttúruauðlind Íslands með reglugerð en endurskoða síðar — ef sæstrengur verður lagður — lagagrundvöll þeirrar reglugerðar og jafnframt að skoða þá hvort innleiðingin samræmist stjórnarskrá Íslands.“ — Þessu er velt inn í framtíðina og síðan segir hér, með leyfi forseta: „Augljóst er að stjórnvöld eru sjálf í vafa um bæði lagagrundvöll fyrirhugaðrar eigin innleiðingar þjóðréttarskuldbindingar og hvort hún samræmist stjórnarskrá.“

Hann fullyrðir sem sagt að ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki klárir á því hvort þetta standist. Það fannst mér koma aðeins í ljós í dag vegna þess að ég verð að viðurkenna að mér fannst hæstv. utanríkisráðherra hljóma eins og hann væri ekki alveg viss um hvað hann væri með í höndunum. Ég mun eflaust segja þetta við hann sjálfan þegar ég hitti hann næst, af því að hann er ekki hérna, svo að hann haldi ekki að ég sé að baktala hann. Ég fékk þessa slæmu tilfinningu, því miður.

Eyjólfur Ármannsson segir lítið eitt seinna í sinni umsögn:

„Að innleiða í landsrétt reglur sem hafa ekki gildi á Íslandi veldur lagalegri óvissu og gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar. Ótti við að missa yfirráð yfir náttúruauðlindum er ein ástæða þess að Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu. Þau yfirráð eru samtvinnuð sjálfstæði og hagsæld þjóðarinnar. Þingsályktunartillagan er lögð fyrir Alþingi með vísan til 21. gr. stjórnarskrárinnar. Sú grein kveður á um að hafi samningar í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins skuli samþykki Alþingis koma til.“ — Hann klykkir svo út með því að segja: „Augljóst er að þegar um helstu náttúruauðlind þjóðarinnar er að ræða ber að leita samþykkis þjóðarinnar.“

Hann leggur til að þessi gerð fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í sjálfu sér get ég alveg, herra forseti, tekið undir það.