149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hjó eftir því að hann sagði þegar hann var að ræða um orkupakka eitt og tvö, að þeir hefðu runnið hér í gegn. Þá er gaman að rifja upp ræðu frá þessum tíma, 30. janúar 2003. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er í ræðustól og segir hér, með leyfi forseta:

„Undir það var ekkert tekið og menn greiddu hér atkvæði með þessu meira og minna sofandi að því er virtist.

Síðar hefur það gerst að einstaka menn hafa vaknað upp við vondan draum og farið að spyrja: Bíddu, af hverju fékk Ísland bara ekki undanþágu frá þessu? … Ég held að sannast sagna hafi ósköp lítið verið reynt í þeim efnum. “

Hér talar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem flutti eina af sínum bestu ræðum, og hefur hann þó flutt margar góðar ræðurnar hér, enda ræðumaður góður. En einna bestu ræður hans eru frá þeim tíma þegar hann var eindreginn andstæðingur orkupakka eitt og tvö. Það var rétt að rifja þetta upp vegna þess að hv. þingmaður kom einmitt inn á þetta. Þetta virðist hafa runnið í gegn. Það er nákvæmlega það sem stjórnarliðar eru að reyna hér, að reyna að keyra þetta í gegn, og treysta því að þingmenn séu meira og minna sofandi. Þess vegna kom þeim algjörlega í opna skjöldu, held ég, að Miðflokkurinn skyldi hafa brugðist við þessu og séð hvaða óskapnaður það væri fyrir þjóðina að innleiða orkupakka þrjú.

Svona í framhaldinu, hv. þingmaður — og til hamingju með ræðu nr. 30 í þessum flokki, vel mælt — (Forseti hringir.) væri gaman að heyra þitt álit á þessum sinnaskiptum t.d. hjá Vinstri grænum í þessu máli. (Forseti hringir.) Svo er hér annar þingmaður, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Það væri gaman að fá hann í umræðuna. Hann gæti kannski aðeins tjáð sig um þetta líka.