149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það eru ekki ný sannindi að oft er einfaldara að athafna sig í lausbundnara regluverki en þar sem vel hefur verið búið um hnútana.

Það vakti athygli mína fyrr í dag eða í gær réttara sagt, fundurinn hefur farið á milli sólarhringa, þegar hæstv. utanríkisráðherra var hérna og hann reyndi að snúa út úr spurningunni um hvað hastaði á að klára málið núna. Og rökin sem hann tilgreindi voru þau ein að það lægi á að klára þetta því að þá kæmi í ljós hversu óþarfar áhyggjur okkar í Miðflokknum hefðu verið. Þetta gætu mögulega hafa verið lélegustu rök sem lögð hafa verið fram hvað varðar það að flýta þessari afgreiðslu.

Ég skil eiginlega ekki hvað ráðherranum gekk til, kannski var það flugþreytan að sækja á hann. En þessi nálgun ráðherrans var algerlega með ólíkindum, að þetta yrði að drífa í gegn svo að menn gætu fært heim sanninn um að áhyggjur okkar Miðflokksmanna hefðu verið óþarfar. Ég vona að sterkari rök fæðist þegar þessari umræðu vindur fram í næstu viku.

Varðandi það sjónarmið hv. þingmanns um skort á orkustefnu langar mig að ítreka spurningu mína og setja hana fram með þessum hætti: Telur þingmaðurinn skynsamlegt að við setjum lúkningu innleiðingar þessa þriðja orkupakka aftur fyrir þann tíma að orkustefna liggi fyrir?