149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:42]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þarna kom hv. þingmaður inn á afar athyglisverða hluti varðandi það að alþjóðlegir fjárfestar skuli sýna þessu þennan mikla áhuga en ekki endilega innlendir, þeir líka, en sérstaklega alþjóðlegir. Sem rifjar upp fyrir mér þá staðreynd sem kom fram í ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar fyrir um sólarhring eða svo, kannski meira, um frétt á fréttaveitunni Bloomberg um að ábatasömustu fjárfestingarfyrirtækin í hinum vestræna heimi lægju nú á Íslandi í orkugeiranum.

Ef við hugsum það rökrétt að hagkvæmast sé að fjárfesta á Íslandi, sem er eyja og er ótengd orkumarkaði sem er sveltur, og að stefna stjórnvalda sé sú að hafa fyrirvara um að leggja sæstreng og jafnvel er tekið svo djúpt í árinni að hann verði ekki lagður, og að á þessari tilteknu eyju sé orkuverð u.þ.b. helmingur af því sem þekkist í Evrópulöndum — og sennilega draumsýn að ætla sér að leggja sæstreng til Ameríku, þó að það gæti gerst í ófyrirsjáanlegri framtíð, alla vega ekki í lifitíð þess sem hér stendur. — Vekur það ekki ákveðnar grunsemdir um að hér sé verið að keyra stefnu sem eigi að nýtast fjárplógsmönnunum?