149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:12]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að ég missti sjónar á tímanum hérna í æsingnum og spenningnum. En það sem ég var að reyna að koma að og spurningin sem mig langaði til að varpa til hv. þingmanns, um leið og ég þakka honum svarið, varðaði einmitt uppbygginguna á dreifikerfinu og kostnaðinn við hana, þ.e. dreifikerfi sem þarf að geta flutt þessa orku. Þetta geta náttúrlega verið fleiri vindorkugarðar en við erum í dæmaskyni að tala um einn vindorkugarð sem framleiðir á hámarksafköstum 200 MW — en ekkert þegar verst lætur, og 20% af tímanum þessi 200 MW. Dreifikerfið þarf að vera byggt upp þannig að það ráði við þetta. Þeim kostnaði má ekki velta á þann sem framleiðir orkuna, orkuframleiðandann, heldur verður það dreifikerfið, sem er í eigu almennings hér á Íslandi, sem tekur við því.

Undir regluverki og lögum Evrópusambandsins, þegar búið verður að innleiða að fullu, eins og segir í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, er alveg ljóst að þeim kostnaði verður velt yfir á almenning. Er íslenskur almenningur tilbúinn til að greiða það verð? Er það stefna stjórnvalda að bjóða íslenskum almenningi upp á það með þessari innleiðingu að raforkuverð muni hækka? Og til hvers? Er það til hagsbóta fyrir almenning eða fyrir fjárplógsmenn óumhverfisvænna virkjana?

(Forseti (SJS): Forseti hefur skilning á því að hv. þingmanni fipist þegar jafn mikill hiti er í umræðunni og raun ber vitni.)