149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að kjarni málsins sé sá að almenningur hefur ekki verið spurður. Segjum að það væru að koma kosningar og við segðum við kjósendur: Við ætlum að innleiða tilskipun sem felur í sér að rafmagnið mun hækka til heimila og við komum ekki til með að ráða því í framtíðinni hvað fæst fyrir orkuna og hversu mikið af henni verði flutt úr landi. Ég held að það sé bara alveg augljóst mál að stjórnmálaflokkur sem færi með þau skilaboð til almennings fengi ekki brautargengi og síður en svo.

Þetta sýnir okkur, herra forseti, nauðsyn þess að gera úttekt á því hvaða áhrif þetta mál kemur til með að hafa á hag heimilanna og efnahagslífið í heild sinni. Það hefur ekki verið gert og ég held að það sé hluti af því að fresta eigi þessu máli, að það eigi að fresta því og fara nákvæmlega í saumana á því hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á efnahagslífið og almenning í landinu. Við eigum að læra af reynslunni af því að innleiða orkupakka eitt og tvö sem var bara hlaupið til með og gert í flýti, án þess að hafa hugmynd um hvaða afleiðingar það hefði fyrir almenning þegar kom að raforkuverði. Stjórnvöld og ráðherrar gefa frá sér yfirlýsingar sem standast engan veginn, um að hér komi ekki til með að verða neinar hækkanir. Annað kom svo sannarlega á daginn. Við eigum að læra af þessari reynslu, herra forseti. Það er nú bara þannig.