149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Í svona stuttu svari getur maður ekki komist yfir mjög margt. Hv. þingmaður spurði um reglugerðir. Það er mikill munur á reglugerðum á Íslandi og í Evrópusambandinu. Reglugerðir á Íslandi eru samdar bara í einu ráðuneyti og ferðast þar á milli ganga og enda á borði ráðherra og hann skrifar undir þær. Það geta verið reglugerðir um hvaðeina, um hundahald eða ýmsa hluti sem eru nánari útfærsla á lögum. Ég er ekki að segja að það sé ómerkilegt en það er svona minni háttar útfærsla. Lög eru mun hærra sett en reglugerðir á Íslandi en í Evrópu er þetta öðruvísi, reglugerðir þar eru svipaðar og lög hér og gilda á öllu svæðinu fyrir 400 milljónir manna. Þess vegna bjóst maður nú kannski við einhverju meiru, frú forseti. Maður bjóst við því að þessi lagalegi fyrirvari væri eitthvað meira en reglugerð samin í ráðuneytinu.

Kannski eigum við eftir að heyra meira af því hver lagalegi fyrirvarinn er. Ég spyr allra helst að því, frú forseti: Eftir hvaða forskrift var þessi lagalegi fyrirvari útbúinn eins og hann er útbúinn? Hvar er sú forskrift? Hana er ekki að finna í áliti þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna, ekki svo ég hafi séð. Er forskriftin einhvers staðar annars staðar? Eða var hún bara útbúin á ríkisstjórnarborðinu? Þeir tala um að það eigi að gera þetta með lagalegum fyrirvara og svo er það ekkert nánar skilgreint. Síðan þegar við spyrjum um hann hér 15. maí: Hvar er lagalegi fyrirvarinn? Þá verður óðagot í stjórnarliðinu. Þeir benda í allar áttir. Þeir geta ekki útskýrt fyrir þjóðinni hver þessi lagalegi fyrirvari er.