149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í niðurlagi þessa langa texta, sem ég fór allt of hratt með vegna þess að tíminn er mjög naumt skammtaður, t.d. eru mér núna skammtaðar 11 sekúndur, segir þessi ágæti maður, með leyfi forseta:

„Hins vegar má spyrja sig hvort heppilegt sé að vera með reglu um frestun á framkvæmd samningsins. Er hún til þess eins að fæla samningsaðila frá því að neita upptöku gerðar í samninginn.“

Þarna erum við kannski komin að merg málsins. Stjórnarliðar hafa hugsanlega lesið þessa lýsingu, orðið skíthræddir, þora þess vegna ekki að taka séns á því að hafna þessari gerð og senda hana til sameiginlegu EES-nefndarinnar eins og þeim hefur verið ráðlegt af líklega þremur mismunandi aðilum. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvað það væri sem fældi menn frá því að nýta þennan sjálfsagða rétt. EES-samningurinn er heilmargar greinar. Af hverju ætlum við ekki að fara eftir þessari grein, 102. gr.? Af hverju ætlum við að segja: Hún hefur aldrei notuð og við þorum það ekki? Hún er þarna og henni var ætlað að vera notuð ef ágreiningur risi. Maður skilur þetta ekki alveg.

Þeir flokkar sem standa að þessari stjórn hafa svo sem verið þekktir að kjarkleysi áður í svona vandasömum málum, sérstaklega sem varða útlendinga. Það er eins og menn bara fái í hnén þegar þeir heyra útlensku talaða. Kannski er þessi uppskrift hér sem ég las áðan ein ástæða þess að menn leggja ekki í þann leiðangur að gera það sem við segjum að sé rétt og er skylt og er leyfilegt. En það er eins og menn bresti kjark og þori ekki að fara alla leið þegar þeir sjá lýsingu eins og þessa.