149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Evrópusambandið skilgreinir orku eins og hverja aðra verslunarvöru. Um hana gilda þær reglur sem gilda almennt um vöru. Auðvitað er ákveðin stefna og markmið varðandi orkuna. Það er ekki nákvæmlega sama stefna og varðandi einhverja aðra vöru en þetta hefur sama gildi. Orka er bara verslunarvara í þessu öllu saman og þar er lögð áhersla á að það sé einhver samkeppni, markaðurinn sé einsleitur og orkustefnan miðar að því að allar 500 milljónirnar eða hvað þær eru margar, plús Ísland, búi við sama umhverfi.

Það er ósköp skiljanlegt þegar maður er með 28 ríki í dag, eða hvað þau eru orðin mörg, sem eru ólík og meiningin er að láta þetta batterí fúnkera, að menn sækist eftir einhverri miðstýringu en hún má ekki fara fram úr öllu velsæmi. Það má ekki vera svo mikið að það kippi lýðræðinu úr sambandi en það er það sem margir óttast innan Evrópusambandsins. Við sáum t.d. um daginn að 107 þingmenn á franska þinginu skrifuðu undir mótmæli gegn því að einkavæða ríkisorkufyrirtæki þar að kröfu Evrópusambandsins út af samkeppnissjónarmiðinu.

Það sem vekur líka áhuga minn á þessum fjórða orkupakka, svo ég vaði úr einu í annað, er að þær gerðir sem er búið að tilkynna að hafi verið uppfærðar eru gerðir sem við erum að velta fyrir okkur í dag hvaða áhrif hafi á Ísland. Það er búið að uppfæra þær sem við erum að velta fyrir okkur að hafi áhrif í dag.