149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér er umhugað um svokallaða virðingu Alþingis þessa dagana. Nú hefur staðið yfir mjög löng umræða um orkupakka þrjú á þinginu og það er það sem stundum er kallað málþóf. Þegar við tökum umræðuna um málþóf er algengt að einhver noti það sem einhvers konar fúkyrði en skauti þá fram hjá þeirri staðreynd að málþóf er fylgifiskur máttleysis minni hlutans.

Ég tók þátt í málþófum sjálfur á þarseinasta kjörtímabili, gerði það alveg opinberlega og var ekkert að fela það. Ég gerði það vegna þess að ég taldi mig tilneyddan, það var vegna þess að þá upplifði ég mig í miklum minni hluta á þinginu og með því að ég var í minni hluta, þó með einhver prósent, hafði ég 0% valdsins. Það er þannig að þegar 60% þingsins taka sig saman fara þau með 100% valdsins.

Ef við viljum efla virðingu Alþingis dugar ekki bara að benda á það sem einhverjir pólitískir andstæðingar eru að gera rangt að manns eigin mati. Við þurfum líka hvert og eitt okkar að velta fyrir okkur hvernig við getum bætt þingstörfin. Það snýst ekki bara um það að við komum sómasamlega fram hvert við annað, vissulega það líka en ekki bara það. Það snýst líka um að ferlarnir og verklagið hérna sé þannig að fólk upplifi sig ekki í þvílíkum minni hluta og svo máttlaust sem kjörnir fulltrúar að það neyðist til að beita brögðum eins og málþófi og öðru slíku sem er stundum kallað þingofbeldi, kannski fulldjúpt í árinni tekið en það er stundum kallað það.

Ef við viljum laga virðingu Alþingis þurfum við ekki bara að velta fyrir okkur hvernig við myndum haga okkur ef við værum einhver annar þingmaður, heldur hvernig við getum hagað okkur sjálf í dag í þeim aðstæðum sem við erum í núna. Það gildir ekki bara um minni hlutann. Það gildir þvert á móti miklu meira um meiri hlutann vegna þess að það er hann sem ræður. Það eru þau yfir 50% sem hafa 100% valdsins. Þar liggur ábyrgðin. Þar er mikilvægt að kjósendur geri þá kröfu að sá meiri hluti sýni ábyrgð í verki og valdefli minni hlutann, (Forseti hringir.) jafnvel þótt það sé þvert á pólitíska hagsmuni.