149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:46]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að ræða um upprunaábyrgð á raforku sem tengist þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins ansi mikið, eins og ég kem nánar að í ræðunni.

Lög um upprunaábyrgð á raforku voru sett árið 2008 og eins og oft áður voru þau lög hluti af innleiðingarferli á tilskipunum frá Evrópusambandinu, nánar tiltekið tilskipun Evrópusambandsins nr. 77/2001. Áheyrendum til upplýsinga eru upprunaábyrgðir raforku — hvað er raunverulega átt við með því? Þetta eru einhvers konar vottorð sem gefin eru út á markaði. Evrópusambandið hefur með þessum tilskipunum sínum reynt að skapa markað á vottorðum um hreinleika raforku, að hún eigi rætur að rekja í endurnýjanlegum orkugjöfum.

Það hefur tekist þannig að íslensku orkufyrirtækin eru farin að selja þessi vottorð sem geta bæði verið skrifleg og einnig rafræn. Á íslenska markaðnum eru fjögur orkufyrirtæki sem hafa verið að selja þessi vottorð. Það er athyglisvert að skoða. Ég sendi hæstv. iðnaðar-, nýsköpunar- og atvinnuvegaráðherra fyrirspurn á síðastliðnu ári og fékk svar fyrir réttum mánuði.

Þá kemur í ljós, en ekki eru nákvæmar tölur til yfir það, en áætlað er að á árinu 2018 hafi þessar ábyrgðir eða þessi vottorð verið seld fyrir 800–850 milljónir. En eru fyrirtækin jafnframt að selja orku? Nei, þau eru ekki að selja orku, þau eru bara að selja vottorð um orku — þeir sem kaupa eru yfirleitt aðilar úti í Evrópu til að líta betur út. Til að geta framvísað viðskiptamönnum sínum, viðskiptavinum, kaupendum eða þeim sem þeir eiga viðskipti við ef þeir framleiða einhverja vöru. Þá framvísa þeir vottorðinu. Kaupandi getur andað rólega vegna þess að viðkomandi seljandi framleiðir vöru sína með endurnýjanlegri orku, sem kemur frá orkugjöfum sem hafa endurnýjanleika. En það þarf þó ekki að vera. Það getur verið kjarnorkuver í grenndinni sem viðkomandi fyrirtæki kaupir orkuna frá.

Þetta er því einhvers konar blekkingaleikur, en á bak við þetta er vissulega góður vilji vegna þess að þetta á auðvitað fyrst og fremst að ýta undir raforkuframleiðendur, að framleiða meira af orku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er tilgangurinn og þeir fá verð fyrir það. Verið er að búa til verð á þessa góðu orku og þar af leiðandi er árangurinn líka sá að sóðalega orkan, kjarnorkan og kolaorkan, þar sem er unnið úr henni, verður verðminni. Þarna er verið að búa til hvata.

Hvernig voru íslensku orkufyrirtækin að selja sína orku samkvæmt svari ráðherra? Á árinu 2018 var heildarverðmætið áætlað 800–850 milljónir. Landsvirkjun selur langmest, áætlað er að Landsvirkjun hafi selt á árinu 2018 fyrir 600 milljónir. Orkusalan er einn seljandinn. Orka náttúrunnar, þar er áætlað að hún selji þessar ábyrgðir á þessu ári, yfirstandandi ári, 2019 fyrir 150 milljónir. Loks er það HS orka. Ég kem betur að þessu í næstu ræðu.