149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vakti sérstaka athygli mína það sem hv. þm. Bergþór Ólason hafði eftir hæstv. utanríkisráðherra úr heimsókn hans hingað í þingið fyrir nokkrum dögum síðan. Ég reyndi að fylgjast með því sem hæstv. ráðherra sagði eins og kostur var en hef líklega þurft að bregða mér aðeins frá þegar þau orð sem hv. þingmaður vitnaði í voru látin falla. Mér þykja þau mjög áhugaverð og kannski dálítið lýsandi fyrir það með hvaða hætti hæstv. ráðherra nálgast þetta mál. Þegar hann er þráspurður um hvað felist í neytendavernd þriðja orkupakkans nefnir hann til sögunnar sjálfstæði Orkustofnunar.

Það rifjaðist upp fyrir mér að hæstv. ráðherra hafði sagt, með nokkrum þjósti, í fyrri umr. um þetta mál: Hverju eruð þið eiginlega á móti? Eruð þið á móti sjálfstæði Orkustofnunar?

Maður veltir því fyrir sér hvort það geti verið að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki með það á hreinu hvers vegna er verið að breyta lögum um Orkustofnun og koma á hinu svokallaða sjálfstæði hennar. Með því er átt við sjálfstæði frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum, sjálfstæði frá almenningi og kjósendum í landinu, til þess að stofnunin geti, ja, ekki orðið ríki í ríkinu heldur til að hún geti orðið hluti af þessu Evrópubatterí, orðið svokallaður landsreglari. Það er sem sagt ein orkustofnun í hverju landi sem lýtur, ég held að það sé ekkert ofsögum sagt þegar allt er komið til framkvæmda, boðvaldi ACER-stofnunarinnar, hinnar sameiginlegu evrópsku stofnunar. Getur það verið, hv. þingmaður (Forseti hringir.) að hæstv. utanríkisráðherra sé einfaldlega ekki búinn að leggja saman tvo og tvo í þessu máli?.