149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún var áhugaverð. Ég verð að taka undir það með hv. þingmanni að ég hef einmitt fundið fyrir miklum áhuga almennings á málflutningi okkar í þinginu og veit til þess að ótrúlega margir hafa haft samband og sagst vera að horfa á rás Alþingis og finnist þessar umræður áhugaverðar. Það er ánægjulegt.

Að sama skapi er það einkennilegt að hv. þingmenn komi upp undir liðnum störf þingsins og gagnrýni það að Miðflokkurinn sé hér í málefnalegum umræðum. Því að þessar umræður eru málefnalegar. Hér hafa komið fram nýjar upplýsingar, eins og t.d. í gær, mjög mikilvægar, nýjar upplýsingar sem skipta verulegu máli í þessu sambandi. Það er alveg einkennilegt að enginn þingmaður úr öðrum flokki skuli hafa nokkurn áhuga á þessum nýju upplýsingum. Þeir ættu að koma hingað upp og ræða þessar nýju upplýsingar vegna þess að þær skipta miklu máli. Við sjáum að undirbúningur að sæstreng er kominn miklu lengra en nokkurn óraði fyrir og innleiðing á þriðja orkupakkanum kemur til með að opna þá leið, eins og við þekkjum, og greiða fyrir því að sæstrengur komi, með þeim afleiðingum að við missum í raun og veru forræði yfir þessum málum vegna þess að þá virkjast ákvæði þriðja orkupakkans, þessarar tilskipunar.

En mig langaði að hnykkja á því við hv. þingmann og spyrja hvort honum finnist ekki óeðlilegt að við í Miðflokknum skulum vera einu þingmennirnir sem (Forseti hringir.) höldum uppi þessum málefnalega málflutningi og t.d. í ljósi nýrra upplýsinga að hingað skuli enginn koma frá t.d. stjórnarliðum og ræða þær nýju upplýsingar.