149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kannski einmitt kjarni máls. Það vill svo til að umræddir sérfræðingar áréttuðu sérstaklega í bréfi til utanríkisráðherra að ekki bæri að meta túlkun þeirra eða álit með þeim hætti að þeir hefðu efasemdir um hvort þessi meðferð málsins fyrir Alþingi stæðist stjórnarskrá eða ekki. Það væri enginn vafi á því að sú aðferð sem hér verður lagt upp með stæðist fyllilega stjórnarskrána og það væri heldur enginn vafi á því að hingað yrði ekki lagður sæstrengur, öðruvísi en með samþykki Alþingis, enda væri settur um það skýr lagalegur fyrirvari sem er til meðhöndlunar fyrir þinginu samhliða þessu máli sem við ræðum hér.

Það væri heldur engin ástæða til að vefengja þá sameiginlegu yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda og orkumálayfirvalda innan Evrópusambandsins að regluverk þriðja orkupakkans um flutningsmannvirki yfir landamæri ætti ekki við hér á landi meðan slík flutningsmannvirki væru ekki til staðar.

Það kemur kannski ekki á óvart. Það er erfitt að heimfæra reglur um slík flutningsmannvirki á flutningsmannvirki sem ekki eru fyrir hendi.

Í ljósi þess hversu oft Miðflokksmenn hafa vitnað til umrædds álits þessara heiðursmanna furða ég mig nokkuð á því að aldrei sé minnst á þá áréttingu sem fylgdi einmitt í kjölfarið á ítrekaðri umræðu og ég vil meina rangfærslum hv. þingmanna Miðflokksins á því áliti að hér væru ekki neinar áhyggjur, það væri enginn vafi á því að þessi málsmeðferð stæðist stjórnarskrána fyllilega. Það væri engin ástæða til að óttast að hér yrði lagður sæstrengur í andstöðu við vilja þings og engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að (Forseti hringir.) þeir fyrirvarar sem hér væru settir héldu ekki.