149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað áhyggjuefni í sjálfu sér að eina tækifæri okkar þingmanna nú til að eiga orðastað við forsætisráðherra hafi verið í gær í tengslum í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Fyrir algjöra tilviljun þá er þessi fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í gær væntanlega tilefni þess að héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson sér ástæðu til að bregðast við þessum misskilningi forsætisráðherra.

Það er auðvitað bagalegt að ekki sé fyrirséð að menn muni fá tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um þetta, því að það er auðvitað grundvallarmisskilningur sem kemur þarna fram. Afstaða forsætisráðherra er svo kristaltær, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Allir lögfræðingar eru sammála um að engin skylda verði leidd af orkupakkanum um að heimila lagningu sæstrengs milli Íslands og annars EES-ríkis.“

Þessi afstaða hæstv. forsætisráðherra skilur ekki eftir neitt svigrúm til túlkunar. Nú liggur fyrir að þessi afstaða er á misskilningi byggð. Ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður: Það er ekkert annað í stöðunni en að taka málið af dagskrá. Það verður auðvitað að vera ákvörðun ríkisstjórnarinnar og forseta Alþingis hvort það verður tímabundið á meðan öðrum málum er hleypt hér að og málið síðan tekið aftur á dagskrá, eða hvort því verður frestað, eins og æskilegt væri, fram á haustið.