149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið við því er í rauninni nei. Ég geri mér enga grein fyrir því hvers vegna í ósköpunum þeir ágætu þingmenn sem eru fylgjandi málinu treysta sér ekki til eða vilja ekki skoða heildarmyndina sem hægt er að sjá núna. Mögulega eru misjafnar ástæður fyrir því. Einhverjir kunna að vera svo miklir Evrópusambandssinnar að þeir sjá það líkt og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ritar í pistli sínum sem birtist í Viljanum í dag, hann er alla vega birtur þar, kann að hafa birst annars staðar í upphafi (BergÓ: Hringbraut.) — Hringbraut, já. Þar fer hann einmitt yfir að þetta er alveg bráðsnjöll leið í áttina að því að opna aftur vilja fólks til að ganga í Evrópusambandið, þ.e. að innleiða þennan orkupakka. Það er svolítið magnað að sjá og ég skil það þar af leiðandi þannig að Samfylkingarflokkarnir Viðreisn og Samfylkingin, mögulega Píratar, séu þess vegna fylgjandi málinu.

Ég á hins vegar erfitt með að átta mig á því hvað hefur snúist hjá stjórnarflokkunum þremur sem hafa fram til þessa — í það minnsta hluti þeirra, ég gæti reyndar trúað að Sjálfstæðisflokkurinn væri klofinn í dag eins og svo oft áður þegar kemur að Evrópumálum, sem er miður, að eitthvað slíkt væri í gangi. Svo veit maður ekki nema það sé þannig að einhver af þeim flokkum vilji hreinlega halda áfram að taka upp raforkustefnu Evrópusambandsins, að innleiða meira af því systemi sem gerir orkuna að enn þá meiri markaðsvöru. Það kann að vera að aðilar innan Sjálfstæðisflokksins sjái tækifæri í því en það er svolítið magnað ef það er innan Vinstri grænna, ef Vinstri græn sjá það sem tækifæri fyrir landið að selja auðlindir sínar eða orkuna úr auðlindunum á þennan hátt.