149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér þessa færslu, eins og það heitir, Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara á samfélagsmiðli og ég þakka honum fyrir svarið. Færslan vekur auðvitað mjög mikla athygli og hún, eins og hv. þingmaður sagði, felur í sér álit mjög viðurkennds og vel metins lögfræðings í þeim efnum. Hún leiðir í ljós að hæstv. forsætisráðherra veður í villu í þýðingarmiklum þætti þessa máls þegar haft eftir henni að allir lögfræðingar séu sammála um að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér lagningu sæstrengs, það verði aldrei gert nema Alþingi ákveði það. Og svar Arnars Þórs Jónssonar, eins og hv. þingmaður rakti, er svona, með leyfi forseta:

„Fyrirvarar Alþingis munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng (hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það) …“

Svo rekur hann ástæður þess.

Í því samhengi er auðvitað rétt að líta til þess að lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar höfðu varað hana við og gert henni ljóst að nákvæmlega sú staða sem Arnar Þór Jónsson gerir að umræðuefni gæti komið upp. Þetta gera þeir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson á blaðsíðu 35 í áliti sínu sem gert er fyrir ríkisstjórnina. Þetta er í neðanmálsgrein 62. Þeir rekja það að Ísland gæti staðið frammi fyrir því að höfðað yrði mál og þeir lýsa þeirri skoðun svo óyggjandi er að Ísland myndi ekki (Forseti hringir.) standa vel í slíku máli.

Hvert er álit hv. þingmanns á undirbúningi þessa (Forseti hringir.) máls af hálfu ríkisstjórnarinnar í því ljósi?