149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í frétt sem birtist fyrir skömmu síðan, að ég held í gær, kemur fram að Landsvirkjun hafi náð raforkusamningi við fyrirtækið Elkem á Íslandi, sem er með starfsemi á Grundartanga. Í fréttinni segir að raforkuverð hafi hækkað umtalsvert til fyrirtækisins. Ég rakst á það að einhverjir hv. þingmenn hafa fagnað því á Facebook-síðum sínum og sagt að þetta sé einmitt það sem koma skal, að hækka þurfi raforkusamninga við þessi fyrirtæki og orkupakkarnir séu hluti af því að það verði að veruleika, sem beri að fagna.

Ég tek þessu með miklum fyrirvara, herra forseti. Ég tel að hér sé um þróun að ræða sem geti haft alvarlegar afleiðingar. Ég tók einnig eftir því að verkalýðsforinginn Vilhjálmur Birgisson hefur lýst yfir áhyggjum af því að verið sé að hækka verulega raforkusamninga til fyrirtækisins Elkem á Íslandi. Hann skrifar færslu um það á Facbook-síðu sinni og lýsir áhyggjum af því. Ég ætla aðeins að koma inn á það á eftir, með leyfi forseta.

En það er þannig með fyrirtækið Elkem á Íslandi, sem veitir fjölda manns atvinnu og er mikilvægt fyrirtæki, að forsvarsmenn þess hafa um langan tíma reynt að ná samningum við Landsvirkjun um raforkuverð en algjörlega án árangurs. Það fór svo að ágreiningnum var vísað til gerðardóms vegna þess að Elkem náði ekki samningum við Landsvirkjun um raforkuverðið.

Það verður að segjast eins og er að ekki er allt fengið með því að reyna að kreista fyrirtæki eins og þetta til að borga hæsta mögulega verð fyrir raforku. Elkem þurfi á tímabili að berjast fyrir í tilveru sinni rekstrarlega séð og umtalsverð hækkun getur leitt til þess að fyrirtæki eins og það hætti á endanum starfsemi. Þá spyr maður sjálfan sig: Hver var ávinningurinn af því að gera ýtrustu kröfur um hækkun á raforkuverði?

Verkalýðsleiðtoginn Vilhjálmur Birgisson fullyrðir að ef auglýst raforkuverð sem Landsvirkjun vildi fá fyrir raforkuna hefði orðið að veruleika í tilfelli Elkem á Grundartanga hefði fyrirtækinu verið lokað og hundruð starfsmanna misst lífsviðurværi sitt.

En þrátt fyrir að Landsvirkjun hafi ekki náð í gegn ýtrustu kröfum sínum um raforkuverð mun þessi hækkun — það fullyrðir verkalýðsforinginn — samt sem áður ógna rekstrarforsendum Elkem gríðarlega og þar með starfsöryggi starfsmanna fyrirtækisins.

Þetta er málefni sem við verðum að horfast í augu við. Maður veltir fyrir sér hvort stjórnvöld geri sér grein fyrir því.

Hér hefur því verið haldið fram af hv. þingmönnum að innleiðing þessa orkupakka sé svo mikilvæg af því að þá förum við loksins að fá verðið fyrir raforkuna sem við eigum að fá þegar kemur að stóriðjunni. En þetta er dæmi um það hvað getur gerst ef við förum fram úr okkur í þeim efnum.

Ég sé það, herra forseti, að tími minn er liðinn. Ég ætla að koma nánar inn á þetta í næstu (Forseti hringir.) ræðu og óska hér með eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.