149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:53]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég fór í síðustu ræðu minni yfir í jarðvarmavirkjanir. Ég var búinn að fara yfir gangsetningar á þeim virkjunum sem eru hér á landi, sem voru átta eða níu talsins. Átta eru starfræktar enn þá, reyndar ein mjög smá en nokkrar stærri. Sú stærsta var Hellisheiðarvirkjun uppsett upp á 303 MW og næststærst voru Nesjavellir, sem er líka nýleg virkjun og er upp á 120 MW. Sú þriðja, Reykjanesvirkjun, er upp á 100 MW, og sú fjórða stærsta og nýjasta er Þeistareykjavirkjun, sem hefur uppsett afl nú um stundir upp á 90 MW.

Við erum að fikra okkur áfram í nýrri vinnslu, nýjum orkugjafa til vinnslu á raforku, sem hófst nokkurn veginn um það leyti sem Kröfluvirkjun var gangsett á áttunda áratugnum.

Ég fór einnig yfir það að uppsett heildarafl allra þessara jarðvarmavirkjana til raforkuframleiðslu hefur vaxið hratt á þessu tímabili, er 35 MW 1979 það er ekki lengra síðan. Fyrir 20 árum var uppsett afl komið í 170 MW, en er nú orðið 753 MW. Þannig að hraðinn í vexti virkjunar á jarðvarma til raforkuframleiðslu hefur verið mjög mikill á undraskömmum tíma. Nú er svo komið að raforkuvinnslan úr þessum jarðvarmavirkjunum er u.þ.b. 27% af rafmagnsframleiðslu á landinu, næstum því þriðjungur, og fer vaxandi.

Hver framtíðin er varðandi þetta er óvíst. Menn hafa sumir talið að mikil umhverfisáhrif væru af þessu, bæði sjónræn og í öðru samhengi, og spurt hvort hægt sé að virkja þetta endalaust. Ég hugsa að það sé nú töluvert eftir í þessu sambandi. En ég held jafnframt að það séu miklir möguleikar, eins og t.d. varðandi djúpboranir. Eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á í andsvari fyrr í kvöld munu vera ansi miklir möguleikar sem eru órannsakaðir að mestu, en rannsóknir standa yfir og hafa staðið yfir þó nokkuð lengi hérlendis. Við höfum verið framarlega í því. Bæði hafa djúpboranir ýmsa kosti umfram hefðbundnar jarðvarmavirkjanir en hafa líka órannsakaða galla sem geta hugsanlega leynst í vinnslu þeirra.

Varðandi raforkuframleiðsluna er ónefnt og má ekki gleyma því að jarðvarmi hefur einnig verið notaður hér á landi mjög lengi til að kynda hús landsmanna um langt skeið. Það er ekki langt síðan að hús voru yfirleitt kynt með olíu, en í dag er jarðvarmi nýttur til að kynda 89% alls húsnæðis á Íslandi, sem er alveg stórkostlegur árangur á undraskömmum tíma. Það eru ekki nema 30–40 ár síðan höfuðborgarsvæðið var allt tengt hitaveitukerfinu, en áður voru mörg hús í sumum hverfum kynt með olíu. Þannig að þar hefur orðið gífurleg framför.

Þegar ég tala um 89% alls húsnæðis á ég við rúmmál húsnæðis, ekki fjölda.

Um miðja síðustu öld voru 74% húsnæðis kynt með olíu, en aðeins 22% með jarðvarma, þannig að þarna hefur orðið gjörbreyting á. Notkun olíu hefur líka farið minnkandi, hún var 2,5% árið 1990, (Forseti hringir.) en er núna 0,2%.