149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Í mínum huga skiptir mestu að við áttum okkur á því að þarna eru hagsmunir sem eru okkur mjög mikilvægir. Nú hafa ákveðnir þingmenn talað fyrir því, sérstaklega þeir sem vilja fara alla leið og ganga í Evrópusambandið, eins og Samfylkingin og Viðreisn, að það séu svo mikil tækifæri í því að selja þessa hreinu orku úr landi og þess vegna eigi að greiða götu þessa verkefnis með öllum leiðum. Draumur þessara stjórnmálaflokka er bara að við göngum alla leið og verðum partur af Evrópusambandinu. Þá ber að hafa í huga að við fáum sjálfsagt gott verð fyrir hreina orku, eflaust mjög gott verð og mun hærra verð en hér heima. En hvað verður þá um þau atvinnutækifæri sem eru í dag og þau fyrirtæki, eins og í stóriðjunni, sem eiga mikið undir því að fá hér raforku á því verði sem gerir rekstrarafkomu þessara fyrirtækja vænlega?

Ég held að menn hugsi þetta ekki alla leið. Hafa kannski sumir stjórnmálamenn ekki áhyggjur af því að þessi fyrirtæki hætti starfsemi og margir missi atvinnuna? Á þá bara frekar að selja orkuna háu verði til Evrópusambandsins? Eiga stjórnmálamenn að útdeila þeim verðmætum út á landsbyggðina? Erum við komin í þá stöðu? (Forseti hringir.) Það er fyllilega þess virði að velta því fyrir sér.