149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var athyglisverð ræða sem hv. þingmaður flutti hér. Þorsteinn Pálsson þekkir trúlega manna best til í myrkviðum Sjálfstæðisflokksins. En spurningin sem hv. þingmaður varpaði hér fram, hvort það gæti verið að þessir þrír flokkar, undir forystu Vinstri grænna, væru að færa Ísland nær Evrópusambandinu en nokkru sinni fyrr, er ekki alveg út í bláinn. Það væri trauðla í fyrsta skipti sem Vinstri græn leiddu slíkan leiðangur þvert ofan í kosningaloforð. Auðvitað getur maður búist við öllu í þessu efni. Og ég get ekki sagt að það myndi koma mjög á óvart, vegna þess að allur umbúnaður þess máls sem við höfum verið að ræða hér lítillega undanfarið er ekki í neinu samræmi við það sem lagt var upp með af hálfu þeirra þriggja flokka sem nú mynda ríkisstjórn í síðustu kosningum. Þeir buðu ekki fram, ekki neinn þeirra, undir því merki að þeir ætluðu að innleiða hér þriðja orkupakka Evrópusambandsins, né heldur boðuðu þeir að þeir myndu færa Ísland nær Evrópusambandinu í bráð og lengd.

En auðvitað ber að taka mark á nafna mínum Pálssyni, og þess vegna þykir mér afar athyglisvert að hv. þingmaður skuli bera þetta mál hér fram.

Mig langar til þess að fá hann til að kommentera á það sem ég sagði áðan um að það væri trauðla í fyrsta sinn sem Vinstri græn leiddu slíkan (Forseti hringir.) leiðangur í blóra við það sem þau boðuðu rétt fyrir kosningar.