149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er ýmislegt sem 15 ára börn mega gera í þessum lögum sem mætti alveg með sömu rökum og með hjálmaskylduna færa upp í 18 ár. Það að keyra traktor held ég að sé að meðaltali hættulegra fyrir bæði þann sem keyrir hann og þá sem eru í kringum hann en það að hjóla í skólann og það að keyra bíl sem þú mátt 17 ára. Af hverju skoðaði nefndin ekki að færa það upp í 18 ef hugmyndin var að jafna allt þar? Ég er ekki að mæla með því heldur aðeins að benda á að ef við lítum á 18 árin sem einhvern stífan viðmiðunarpunkt þá þarf hann að eiga við um allt í þessum lögum en ekki bara þetta eina atriði.

Ég held samt að þessi tillaga sé lögð fram af góðum hug þar sem fólk vill að börn séu örugg á hjólunum sínum. Það sem ég óttast að þetta geti leitt til er aukinn ótti við að stunda hjólreiðar, vegna þess að sú tilfinning sem verður til þess að þessi breyting kemur frá nefndinni vex upp úr þeirri óttaslegnu umræðu sem oft er í kringum hjólreiðar. Það er talað um það hvað hjólreiðamenn fari hratt á stígum, hvað þeir fara ógætilega fram úr gangandi fólki og að þeir virði engin mörk. Búið er að byggja upp ákveðna ímynd þar sem er mjög auðvelt að fá samþykki margra fyrir því að herða reglur af umhyggju fyrir þeim sem stíga á hjól.

Þingmaðurinn lagði til að málið færi til nefndar milli 2. og 3. umr. til að þetta mál yrði skoðað betur. Ég læt honum eftir að meta það sem fulltrúa í umhverfis- og samgöngunefnd, en sjálfsagt mætti skoða það betur. Svo mætti líka bara (Forseti hringir.) leggja þessa tillögu til hliðar og fela ráðuneytinu að skoða þetta sjálfstætt og koma með tillögu síðar.