149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski orða það eins og hv. þingmaður gerir, að á meðan ekki eru nein markmið og ljóst hvernig á að framkvæma þetta þá er þetta stefnuleysi. Þetta er kallað heilbrigðisstefna og þarna eru ákveðnar lýsingar og fögur fyrirheit sem við verðum að telja jákvæð. Ef þeim verður ekki hins vegar ekki fylgt eftir og við náum ekki að fjármagna og framkvæma þau er þetta náttúrlega tilgangslaust plagg og algjör stefnuleysa.

Varðandi hjúkrunarfræðingana hefur það alla vega verið þannig að skortur hefur verið á hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum. Er ekki orðið gamaldags að vera með fjöldatakmarkanir í námi í heilbrigðisvísindum? Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki orðið þannig að við þurfum að vera með þetta allt opið þannig að fólk geti menntað sig. Nú kann ég ekki alveg hvort einhverjar breytingar hafi orðið á því en ég myndi vilja sjá þetta með þeim hætti. Biðlistarnir virðast lengjast eða í það minnsta gengur hægt að vinna þá niður. Þá getur spilað inn í skortur á stefnu, skortur á fjármagni, skortur á starfsfólki. En allt er það eitthvað sem ég held að við hljótum að geta brugðist við. Mér sýnist t.d. varðandi þær liðskiptaaðgerðir sem hafa verið mikið í fjölmiðlum að skortur sé á vilja til að leysa það mál.

Varðandi frjálsu félagasamtökin má velta fyrir sér hvernig ástandið yrði ef þau hættu nú bara öll starfsemi. Hvernig yrði álagið þá? Þá þýddi ekkert að koma fram með einhver orð á blaði. Þá værum við að horfa á neyðarástand umfram það sem er í dag. Það er sérkennilegt ef heilbrigðisráðherra og þeir sem véla með þetta í dag sjá það ekki og taka þá áhættu að hrekja þessa aðila út af borðinu eða gera þeim það erfitt fyrir og þessi frábæru samtök fara að hugsa sinn gang. Það er rosaleg afturför ef svo verður.