149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Framsögumaður málsins reifaði nefndarálitið mjög vel þegar umræðan byrjaði fyrir nokkrum vikum síðan. Það er óþarfi fyrir mig að endurtaka það hér en mig langar samt að fagna því að það komin sé heilbrigðisstefna. Það er að mörgu leyti skynsamlegt að hafa algeran grunn og byggja svo aðgerðaáætlanir ofan á hann. Mér skilst að það sé einmitt hugmyndin og að þess sé að vænta mjög bráðlega að við fáum að sjá aðgerðaáætlanir sem eru eins konar undirflokkar stefnunnar í brýnustu málaflokkunum á borð við öldrunarmál og sjúkraflutninga og mönnun, heilabilun og ávana- og fíkniefni o.fl.

Það sem kom ítrekað fram hjá gestum sem komu fyrir velferðarnefndina er að skortur var á samráði við gerð stefnunnar og það er miður. Því langar mig að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að bæta samráðið þegar kemur að slíkri vinnu í framtíðinni en líka núna við aðgerðaáætlanirmar, því að þar er mjög mikilvægt að samráð sé gott og að hagsmunaaðilar fái að koma að vinnunni.

Einnig langar mig að ítreka mikilvægi þess að heilbrigðisráðherra fylgist vel með stefnunni, að stefnunni sé fylgt eftir og að árangur sé mældur á einhvern hátt. Undir Framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisstefnunni kemur fram, með leyfi forseta, að íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar.

Ég vil undirstrika mikilvægi þessarar greinar og mikilvægi þess að áhersla á forvarnir sé tryggð í áframhaldandi vinnu í heilbrigðismálum og öllum undirflokkum stefnunnar, því að byltinguna í heilbrigðismálum er að finna í forvörnum. Það er mikilvægt að við séum leiðandi og til fyrirmyndar í þeirri vinnu.

Það er einnig mjög mikilvægt að skoða samhengi hlutanna og þá sérstaklega þegar við erum að skoða forvarnir að hugsa um áhrif fátæktar og áfalla á heilsu fólks. Það er þess vegna mikilvægt að forvarnastarf í heilbrigðismálum sé unnið í samráði við önnur ráðuneyti og sé skoðað í heildarsamhengi við efnahagslega og félagslega stöðu einstaklinga í samfélaginu. Það er sú nálgun sem t.d. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin talar um sem fyrsta stigs forvörn eða, með leyfi forseta, „primary prevention“, en þar eru tilgreindar aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir sjúkdóma og horfa m.a. til áhrifa félagslegra og efnahagslegra áhrifa á heilsu og koma þar inn með forvarnir.

Tyler Norris, varaforstjóri Kaiser Permanente í Bandaríkjunum, sem er einn stærsti veitandi heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum, tryggingafyrirtæki, hefur talað um þann rugling sem hefur verið uppi varðandi hinar raunverulegu ástæður fyrir góðri eða slæmri heilsu. Hann telur að lausnin felist mun frekar í úrbótum á efnahagslegum og félagslegum aðstæðum fólks en t.d. með læknismeðferð og lyfjanotkun. Það er mjög áhugavert að þetta sé komið í umræðuna hjá því stóra fyrirtæki.

Póstnúmer hefur mikið með félagslega og efnahagslega stöðu fólks að gera í Bandaríkjunum og telur Tyler Norris að póstnúmerið segi meira til um heilsu fólks en erfðaefnið. Það er frekar sterkt til orða tekið. Leyndarmálið að góðri heilsu samkvæmt Norris felst nefnilega ekki endilega í tækniframförum og uppgötvunum á sviði heilbrigðisvísinda heldur er það háð skipan hagkerfisins, þ.e. þegar hagkerfið mætir þörfum allra minnka heilsufarsvandamál.

Þetta finnst mér dálítið kjarninn í þessari umræðu og ef okkur er raunverulega alvara með þetta forvarnastarf, fyrsta stigs forvarnir, þá hljótum við að vera að hugsa um hvernig þessi kerfi okkar hafa áhrif á hvort annað og horfa til þess hver félagsleg og efnahagsleg staða fólks er og hvort við getum ekki passað upp á það að við grípum fólk snemma og komum í veg fyrir að fólk lifi í sárafátækt á Íslandi undir öllu því álagi sem fylgir því sem við vitum að skapar mikið af heilsufarsvandamálum í framtíðinni og kostar okkur alveg fullt af peningum. Annars fagna ég þessari heilbrigðisstefnu og hef ekki mikið meira um hana að segja.