149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

tilkynning.

[10:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég veit að hæstv. forseti hefur áratugamikla reynslu, langa reynslu, í fundarstjórn forseta, mikla reynslu í því hvernig eigi að haga fundarsköpum og fara í kringum þau. Ég er ekki að biðja hann um þá leiðsögn hér. Ég er einfaldlega að biðja hann um þá leiðsögn að svara skýrt til okkar þingmanna hvort það sé ekki alveg ljóst að þingfundur standi þá í lengsta lagi til kl. 12 í kvöld. Það er enginn að tala um málþóf. Ég tek einnig eindregið undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ingu Sæland um að við eigum að sýna manndóm í því að taka 16. málið fyrst á dagskrá, sem snýr að almannatryggingum og greiðslum, um krónu á móti krónu. Við eigum að geta klárað það líka. Þetta er mál sem við getum tekið bæði daginn í dag og á morgun. Það er enginn að þrýsta á neitt annað. Það er enginn að leika sér hér.

Það er eindregin og einlæg ósk mín (Forseti hringir.) að hæstv. forseti sýni þinginu og þingheimi öllum, ekki bara stjórnarmeirihlutanum heldur öllum þingheimi, þá virðingu og svari þeim spurningum sem beint er til hans: Hversu langur á þingfundur að vera? Ekki vera með einhverja hálfvelgju þó að áratugareynsla sé í því.