149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega ósammála því að nú sé góður tími til að setja einhverjar framkvæmdir á bið. Ef við ætlum að vera í einhverju sveiflujöfnunarhlutverki þýðir ekkert að ganga með sveiflunni niður á við. Þegar við erum að minnka hagkerfið, þ.e. þegar hagkerfið er að dragast saman … (Gripið fram í.) — Já, það er rétt, þetta er lítill hluti af heildinni. Stóra málið er, það er rétt hjá hv. þingmanni, að það er rosalega mikil sóun í kerfinu. Ég er búinn að senda inn margar fyrirspurnir um hugbúnaðarkerfið þar sem komið hefur í ljós ótrúlega mikill fjáraustur í hluti sem ættu að vera margfalt ódýrari að mínu mati. Það er mjög víða í kerfinu sem ekki er farið jafn vel með peninga og hægt væri að gera.

Hitt er annað mál að við erum alltaf að horfa á krónur og aura sem útgangspunktinn í staðinn fyrir að spyrja: Hvaða innviði þarf samfélagið til að geta náð sem mestum árangri? Hvernig hámörkum við árangur samfélagsins? Við getum síðan skoðað peningana eftir á og þá gætum við farið að vinna markvisst með það t.d. hvað skuldahlutfall ríkissjóðs er lágt í augnablikinu og leyft okkur þegar það er samdráttur, þegar framleiðsluspennan minnkar þannig að það verður til einhvers konar — fólk getur unnið meira en það gerir og tæki geta unnið meira, og hægt verður að nýta þau betur í uppbyggingarverkefnum fyrir samfélagið þó að það kosti ríkissjóð eitthvað aðeins meira núna. Við vinnum það svo upp í næstu uppsveiflu og höldum þannig einhvers konar jafnvægi.

Mér finnst svo oft eins og verið sé að gera hlutina þveröfugt við það sem væri skynsamlegt að gera. Fólk dregur saman seglin þegar það er niðursveifla og allt er keyrt í botn þegar það er uppsveifla. Núna síðast þurfti vissulega (Forseti hringir.) að keyra svolítið meira í botninum en venjulega, þ.e. fjárfesta meira, vegna þess að uppsöfnuð fjárfestingarþörf var svo mikil og uppbyggingarþörf, viðhaldsþörf og annað. En við eigum almennt séð að reyna að halda einhvers konar jafnvægi.