149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:48]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér skilst að samráðshópurinn hafi réttilega talað um þetta skref, að afnema krónu á móti krónu skerðingu eða minnka þær skerðingar, en útfærslan hafi aldrei verið rædd í neinum smáatriðum. Ég geng út frá því að útfærslan hafi verið unnin í ráðuneytinu. Það hefði kannski verið vænlegra, þótt tíminn væri knappur, að vinna þetta í betra samráði. Það kemur alltaf í veg fyrir að fólk sé reitt eða vonsvikið með svona mál. Ég sé alveg að þetta er hænuskref í rétta átt, þótt það sé alls ekki nægilega langt.

Ég ætla ekkert að lengja þessa umræðu frekar af því að við tökum þetta mál fyrir á velferðarnefndarfundi nú í hádegishléi. Mér skilst að ráðuneytið sé að koma til okkar sem er mjög gott. Við munum að sjálfsögðu reyna okkar besta til að koma málinu áfram og vonandi koma því í gegn fyrir þinglok því að þó að þetta sé hænuskref er þetta réttarbót.

En ég hvet ráðherra til þess að ganga lengra (Forseti hringir.) þegar verið er að endurskoða þessi lög, sem er gott og vel, og það sé haft í huga að við þurfum að færa okkur í átt að því að afnema þessar skerðingar alveg. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Er hann sammála því? Þurfum við ekki að ganga lengra og afnema þetta alveg og einfalda kerfið?