149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

sjúkratryggingar.

644. mál
[14:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á þetta. Vel á minnst, þetta er til að minna okkur á að persónuverndarlöggjöfin er ekki valkvæð, hún er landslög og hún gildir. Jafnvel þó að í lögum annars staðar standi eitthvað þarf samt að fara eftir persónuverndarlögum. Í persónuverndarlögum og tilheyrandi reglugerð sem kom frá Evrópusambandinu er gerð mjög rík krafa um að fólk sé upplýst um hvaða persónugögnum er safnað, hvers vegna, hvaða rétt menn hafi til þess og hvernig þeir nýti þann rétt til að fá þau leiðrétt, þeim eytt o.s.frv.

Þetta gildir um þessar breytingar eins og annað og þessar breytingar eru til þess að uppfæra lögin í samræmi við þessi góðu gildi. Það er mikilvægt að hafa það í huga því að hér er um afskaplega mikilvægan rétt borgaranna að ræða sem er mjög mikilvægt að fólk upplifi og skilji rétt og að starf okkar hérna endurspegli þann sjálfsagða metnað margra okkar, borgaranna, að fá að vera í friði þegar svo ber undir. Og þegar það er óhjákvæmilegt að veita viðkvæmar upplýsingar í samskiptum við stofnanir ríkisins, sem hafa þann tilgang að tryggja réttindi og hag borgaranna, hafi borgarinn samt sem áður sem allra mesta stjórn á þeim upplýsingum og sem allra mesta þekkingu á því hvar upplýsingum er safnað, til hvers o.s.frv. Mér finnst ábending hv. þingmanns mjög góð og ég þakka honum fyrir hana.

Ég ítreka að ég kom í pontu vegna þess að mér fannst rétt að nefna þetta vegna þess að við fljótan yfirlestur málsins er þetta ekki augljóst hinum almenna leikmanni ef hann er ekki inni í allri umræðunni með þeim breytingum sem nýju persónuverndarlögin komu á.