149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt í ræðu hv. þingmanns sem ég áttaði mig ekki algerlega á. Það er sú áhætta eða undirbúningur sem þetta mál er að fullri aðild að Evrópusambandinu. Við þekkjum það náttúrlega að núverandi stjórnarflokkar, alla vega tveir þeirra, hafa haft uppi tilburði til þess að ganga þar inn. Mig langar til að biðja hv. þingmann að skýra aðeins betur fyrir okkur hvernig hann telur að þetta mál geti orðið vegvísir eða aðgöngumiði að því að Ísland gangi í og verði fullgildur aðili að Evrópusambandinu.

Ég bið þingmanninn að fara yfir það með tilliti til þess sem nafni minn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur látið frá sér fara og draga það fram fyrir okkur aðeins betur hvernig sú þróun gæti hugsanlega orðið og hvaða merki séu næst á leiðinni, hvaða vegvísar séu næstir á leiðinni í því að menn fari í það á fullu að bindast Evrópusambandinu enn sterkari böndum en nú er.

Ég held að full þörf sé á því að þeim sem standa að ríkisstjórninni sé alveg ljóst í hvaða stöðu þeir eru og í hvaða stöðu við erum með þetta mál og í hvaða stöðu þeir eru að setja málið í heild. Ef hv. þingmaður myndi fara aðeins yfir það með okkur.