149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að ítreka aðeins spurninguna, svarið kom ekki alveg skýrt fram. Ástæðan fyrir að ég spyr að þessu er sú að ef hætta stendur fyrir dyrum eigum við að benda á hana og við eigum að verja almannahag í öllum málum. Í þessu máli varð ég, eins og ég segi, hræddur í upphafi um að mikil hætta væri á ferð.

Það er alltaf einhver hætta á ferð í öllu. Menn verða alltaf að meta hver áhættan er og hver er þá ástæðan til að bregðast við og hve, hvað á ég að segja, harkalega maður á að bregðast við. Það veltur náttúrlega á hve áhættan er mikil. Mig langar að spyrja þingmanninn til að það sé skýrt hvar hann setji sinn stjórnarskrárlega fyrirvara, því að það er hans sannfæring sem ræður samkvæmt stjórnarskrá og þingsköpum. Hvar eru mörkin þegar kemur að því að leyfa afsal fullveldis? Fram kemur að nafn þm. hv. Þorsteins Sæmundssonar (Forseti hringir.) er á áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um stjórnarskrárlegan (Forseti hringir.) fyrirvara til utanríkismálanefndar sem fer til sameiginlegu EES-nefndarinnar þess efnis að það að heimila ESA að sekta lögaðila beint á Íslandi sé ekki brot á stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Ef þingmanninum finnst það væri gott að fá það alveg skýrt þannig að við vitum nákvæmlega hvar við stöndum.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn, alla sem einn, að virða tímamörk sem kynnt eru.)