149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það sem ég var að velta fyrir mér voru þessir lagalegu fyrirvarar og kannski sérstaklega vegna þess að hv. þingmaður er í atvinnuveganefnd. Nú hefur verið bent á ýmsa möguleika, hvar þann lagalega fyrirvara er að finna, hvort sem orðið er notað í eintölu eða fleirtölu. Stundum er talað um lagalegu fyrirvarana, stundum um lagalega fyrirvarann, þannig að við áttum okkur ekki alveg á því. Getur hv. þingmaður upplýst mig eitthvað nánar um það, af því að hann er í hv. atvinnuveganefnd?

Það hefur verið talið að lagalega fyrirvarann sé að finna í atvinnuveganefnd, það hefur komið fram í umræðunni. Hefur hv. þingmaður orðið var við hann í nefndinni? Það hefur einnig verið talið að lagalega fyrirvarann væri að finna í raforkulögum, frumvarpi til raforkulaga. Ég get ekki áttað mig á því vegna þess að breytingin á raforkulögum er sambærileg við 39. gr. núverandi raforkulaga. Ég átta mig ekki á því. Það er ekkert nýtt þar að finna þannig að ég átta mig ekki á því hvernig hann getur verið þar.

Þar hefur einnig komið fram að fyrirvarann sé að finna í yfirlýsingu EFTA-ríkjanna. Ekki átta ég mig á því. Komið hefur fram að hann sé að finna í yfirlýsingu framkvæmdastjóra orkumála hjá Evrópusambandinu. Ég átta mig ekki á því hvernig hann er að finna í þeirri yfirlýsingu.

Komið hefur fram að hann sé í reglugerð sem væntanleg sé frá hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ég hef ekki séð þá reglugerð nema (Forseti hringir.) drög að henni.

Ég get haldið áfram í næsta andsvari, en hefur hv. þingmaður orðið var við þennan lagalega fyrirvara í atvinnuveganefnd?