149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Mikið er nú gaman að fá svona ferska nálgun í þessa umræðu og ég skal passa mig núna á að svara spurningunni sem ég gleymdi að svara áðan: Hvar set ég mörkin varðandi stjórnarskrána og ekki hvað síst við innleiðingu á Evrópureglugerðum?

Mörkin hljóta a.m.k. að liggja þar að við útvistum ekki valdi, valdheimildum, til stofnana sem við höfum ekkert um að segja. Svar stuðningsmanna þessa máls við áhyggjum okkar hvað þetta varðar hefur verið að ACER, þessi sameiginlega orkustofnun Evrópu, hafi í rauninni ekki beint vald á Íslandi eða yfir íslenskum orkumálum vegna þess að ESA verði einhvers konar milligönguaðili. Það hefur verið bent á það, m.a. af fræðimönnum sem hafa komið fyrir utanríkismálanefndina, að hlutverk ESA sé í rauninni bara að koma á framfæri tilskipunum ACER og jafnvel, ef ESA hafi eitthvað viðbótarhlutverk þá sé það að hafa enn meira eftirlit með Íslandi fyrir hönd í raun ACER og Evrópusambandsins.