149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Ég vísa til þess að hann er fyrrverandi forsætisráðherra og býr að mikilli þingreynslu, a.m.k. meiri en flestir sem hér eru viðstaddir. Nú er staðan sú, eins og hann ræddi, varðandi þessa fyrirvara að staðið hefur yfir leit, m.a. með liðsinni Miðflokksins með sérþjálfaðan mann, en ekkert hefur komið í leitirnar sem hægt er að ímynda sér, herra forseti, að nokkur lagamaður myndi álíta að hafi hið minnsta þjóðréttarlegt gildi.

Með því að samþykkja þessa tillögu erum við að fella á brott það sem heitir stjórnskipulegur fyrirvari. Þar með erum við búin að axla þá þjóðréttarlegu ábyrgð að innleiða þessar gerðir, þar á meðal reglugerð 713 sem mestar efasemdir ríkja um. Ríkisstjórnin hefur ekki getað skýrt það greinilega fyrir sínu þingliði eða öðrum stuðningsmönnum á Alþingi í hverju sá lagalegi fyrirvari felst. Þeir eru með nokkurn veginn jafn margar skýringar og nemur fjölda þingmanna að því er séð verður, þær eru orðnar svo margar.

Svo kemur hver þingmaðurinn á fætur öðrum úr stjórnarliðinu og mælir af, eins og manni sýnist, innstu sannfæringu að þarna sé hinn eiginlegi fyrirvari. Ég spyr með vísan til þess sem ég gat um í upphafi: Telur hv. þingmaður að þetta mál sé í raun og sanni þingtækt ef það er sú forsenda að hægt sé að samþykkja það að gerður sé þessi lagalegi fyrirvari? Er það þingtækt þegar hann liggur ekki fyrir, þegar stuðningslið þingflokks stjórnarinnar veit ekki hver hann er og virðist vaða í villu og svíma, hver og einn með sína eigin kenningu sem haldið er fram af mikilli sannfæringu?

Í mínu seinna andsvari ætla ég að ræða nokkrar aðrar forsendur fyrir málinu.